mánudagur, nóvember 13, 2006

Jörðin fyrir Fólk!

Í sumar fréttist að innflytjendur ætluðu að bindast samtökum og bjóða fram til sveitastjórna eigi síðar en í næstu kosningum árið 2010 og jafnvel til Alþingis árið eftir. Veit ég vel að hér var ekki um að ræða félag íslenskra stórkaupmanna eða minnkandi stétt heildsala sem vilja ná fram hefndum og gera alvöru úr meintum pólitískum ofsóknum á hendur Baugi, með pólitískum áherslum á innflutning varnings til landsins. En það stóð ekki lengi í tápmikilli stjórnmálaumræðu á Íslandi.

Mannskepnan er einkennileg, í nafni frelsis er fólk hneppt í helsi, í nafni friðar fara menn um með ófriði. En við fæðumst í þessa sömu veröld, sumir vilja hvergi annarstaðar vera en hvar í heiminn bornir þeir voru, aðrir eru á sífelldu randi. Ánægja og hamingja flestra er best tryggð með sem minnstum núningi. Sama á hvað hver trúir þá er tortíming mannkyns ekki forgangsatriði í trúmálum. Þeir sem sætta sig við veðráttuna, þeir sem fara að lögum á hverjum stað fyrir sig, þeir sem geta átt friðsamleg samskipti við samborgarana þeir hinir sömu eru húsum hæfir og eru velkomnir víðast hvar.

Eitt er að dvelja, læra og eða starfa á Íslandi, annað er að verða Íslendingur, verða íslenskur ríkisborgari. Ríki geta sett kvaðir um hvorttveggja. Til að draga úr tortryggni er best að skýrt liggi, áður en tækifæri til múgsefjunar og illinda gefist, hvaða skyldur menn þurfi að uppfylla til að hljóta réttindi. Sum ríki krefja borgara sína um þegnskyldu í þágu ríkisins, ekki endilega þjóðarinnar, við varnir ríkisins, önnur ríki beina sjónum að jafn ábyrðar miklum störfum og seta í kjörstjórnum krefst, binda slíkt þegnskyldu. Til sumra ríkja hefur verið stofnað til varnar réttindum ákveðinna þjóða, enda er sem fyrr segir; þjóðríkið vinsælt form í ríkisrekstri. Ríkin geta sett menningarleg viðmið inn í lög sín, sem mælikvarða á menningarlega samheldni ríkisborgaranna.

Svo virðast menn í Frjálslyndaflokknum, nýjasta, hafa kosið fályndi framar frjálslyndi. Því nú fá innflytjendur þá gusu sem gekk yfir útgerðarmenn fyrir einu kjörtímabili síðan. Ekki dettur mér þó í hug að væna Alþingismenn um nýstárlega hugsun til að krefja einkafyrirtæki um hærri styrki til stjórnmálaflokks síns ef stefnubreyting eigi að koma til. Eitthvað gæti velgengnisvél víkinganna góðu hikstað suðvestan við Kænugarð ef athafnafrelsi okkar yrði takmarkað þar á sama hátt og athafnafrelsi fólks af þeim slóðum verður takmarkað hér.

Morgunblaðið 11. nóvember 2006