þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Meðan ég man

Þetta var víst í Morgunblaðinu fyrir helgi...

Óánægjueldi

Í sumar hafa þekktar raddir kyrjað kunnan söng. Enn minnist Kristinn H. Gunnarsson á meinta meinsemd. Kristinn lýtur á framsal veiðiheimilda sem meinsemd sem hann nefndi nú í sambandi við blossandi elda og gjósandi andstöðu. Það hætt við því að slíkt endurtaki sig ef alltaf er leitast við að ala á óánægju.

Fyrir um fimm árum var Kristinn formaður í stjórn Byggðastofnunar og þá var gerð skýrsla um Sjávarútveg og byggðaþróun á Íslandi. Skemmst er fá því að segja niðurstaðan féll vel að málflutningi stjórnarformansins. Skýrslan er mörgum gleymd en málflutningurinn heldur áfram. Með skýrsluna að vopni hefur harðar verið sótt að hinni meintu meinsemd. En skýrslan er tvíeggja sverð. Í skýrslunni eru tekin dæmi af íbúaþróun og verslun með veiðiheimildir. Við útgáfu skýrslunnar var framsali veiðiheimilda kennt um byggðaröskun. Byggðaröskun eða hrörnun byggða, fólksfækkun á landsbyggðinni, hófst ekki með framsali veiðiheimilda. Tilfærsla veiðiheimilda jafngildir ekki búferlaflutningum fólks. Áréttaði höfundur að hvað fólksflutning varðaði, kæmi meira til en hreyfingar aflaheimilda, Kristinn hefur lengi látið sem hin meinta meinsemd sé rót flest alls ills. Í skýrslunni voru tekin dæmi af Hrísey annarsvegar og Ísafirði og Hnífsdal hinsvegar, ekki var að sjá að aflaheimildir og íbúar héldust í hendur.

Í skýrslunni voru borin saman fiskveiðiárin 1992/1993 og 2000/2001. Á þessum árum drógust aflaheimildir sem úthlutað var til höfuðborgarsvæðisins 15% meira saman en sem nam heildar skerðingu aflaheimilda Íslendinga, samatímis fjölgaði íbúum þar úr því að vera 57% landsmanna í rúm 62% landsmanna. Árið 1992 var 86,5% aflamarks úthlutað á landsbyggðinni en þar bjuggu um 42,2% landsmanna, árið 2000 var 89,2% aflamarks úthlutað þar en þá bjuggu þar um 38,1% landsmanna, í skýrslunni var ekki tekið tillit til sérstakra úthlutana aflamarks. Ef sérstakar úthlutanir eru teknar með í reikninginn, líkt og á vef Fiskistofu, var 83,6% aflamarks úthlutað til landsbyggðarinnar árið 2002, í fyrra féllu 85,7% aflamarks landsbyggðinni í skaut, í fyrra voru 37,5% landsmanna á landsbyggðinni. Hvorki skýrslan né þróun eftir útgáfu skýrslunnar benda til þess að auknar aflaheimildir jafngildi fjölgun íbúa. Þróunin bendir til hins gagnstæða. En formaðurinn, þrátt fyrir ábendingar, fagnaði skýrslunni og mælti fyrir stórfelldum breytingum á núverandi fiskveiðistjórnun, svo stórfelldum að sumir sögðu að slíkt þýddi afnám núverandi kvótakerfis, til þess að koma á jafnvægi í byggð landsins.

Skýrsluhöfundur sagði annað geta komið til greina. Ein athugasemda sem fram kom um árið var á þá leið að skýringa gæti þurft að leita í þróun sem hófst á 19. öld. Til langs tíma voru Íslendingar annarsvegar bændur og hinsvegar búalið. Það var jafnvægi. Á 19. öld var höfuðstaður vor styrktur í sessi með stjórnvaldsaðgerðum ekki síst með mótun menntastofnana. Síðan þá hefur hlutfall íbúa höfuðborgarsvæðisins af landsmönnum aukist, þegar fleiri og fleiri Íslendingar sækja í menntun - Menntun hefur haft meiri áhrif á byggðaþróun en framsal aflaheimilda. Viljum við loka skólunum til að frysta byggðamynstrið?

Söguna þekkja flestir. Hjón, e.t.v. búsett á landsbyggðinni, eignast barn, hvetja barnið til dáða, halda því við efnið hvað nám varðar, að loknu grunnnámi eru foreldrarnir ekkert sérlega líklegir til að draga úr áætlunum barnsins um frekara nám svo þá er það framhaldsskóli að honum loknum liggur beinast við að fara í háskóla, sumir fá sér vinnu með skóla aðrir stofna fjölskyldu og enn aðrir gera hvorttveggja. Þá er búið að stofna heimili áður en námi er að fullu lokið og e.t.v. lítið um freistandi tækifæri sem bjóðast í heimabyggðinni þannig að mörgum finnst varla svara kostnaði að rífa sig upp með rótum og flytja út á land eða heim að námi loknu enda búnir að koma sér þægilega fyrir á höfuðborgarsvæðinu.

Búseta er í stöðugri þróun, byggðamynstrið í landinu er í dag ekkert réttara en það var árin 874, 930, 1851 eða 1939. Byggðamynstrið er síbreytilegt og í stöðugri þróun. Ef fólki væri í dag meinað að flytja sig spönn frá rassi væri verið að endurvekja vistarbandið í nýrri mynd. Það er annað mál er einstaklingar á ákveðnum svæðum leggja hlutfallslega meira í sameiginlega sjóði landsmanna, til langs tíma en íbúar á öðrum svæðum og búa samt við lakari þjónustu af hálfu samfélagsins en þeir sem leggja minna af mörkum. Málin þarf að ræða á réttum forsendum. Ekki með hleypidómum um hálfsannleik eða þaðan af minna. Slíkt er óánægjueldi.

Heimildir
Heimasíða Kristinn H. Gunnarssonar
Sjávarútvegur og byggðaþróun á Íslandi, Unnið fyrir stjórn Byggðastofnunar. Mars 2001.
Af vef Fiskistofu; Úthlutun aflamarks e. heimahöfnum 1991/1991 - 2005/2006:
Hagskinna - Geisladiskur. Hagstofa Íslands. Reykjavík 1997.

Morgunblaðið 25. ágúst 2006

0 Comments:

Sendu inn athugasemd

Links to this post:

Create a Link

<< Home