Reykjavík - langstærsti byggðastyrkurinn

ÞAÐ er öllum kunnugt að Íslendingar hafa byggt upp borgina sína við sundin og kappkostað í tvær aldir að bæta ásjónu sína til að sýna heimsbyggðinni. Reykjavík hefur vaxið og dafnað. Frá því að biskupsstólarnir voru sameinaðir og stólsskólarnir sameinaðir og fluttir með þeim þangað sem nú heitir höfuðborgarsvæði; Alþingi var lagt niður á Þingvöllum og Landsyfiréttur settur á fót í Reykjavík; hefur Reykjavík verið miðpunkturinn og sá staður sem allir landsmenn hafa styrkt dyggilega. Landsmenn hafa hvort tveggja stutt við bakið á uppbyggingu Reykjavíkur með spekileika landsbyggðarinnar, búferlaflutningum sínum sem og skattgreiðslum. Hvorki þurfti kvótakerfi né heimild til framsals á aflaheimildum til að fjölga íbúum í Reykjavík og síðar í nágrenni Reykjavíkur. Á endanum þótti öllum betra að hafa höfuðstað Íslands á Seltjarnarnesi fremur en á Sjálandi. Því var Stjórnarráði Íslands valinn staður í Reykjavík. Síðan þá hefur í heila öld öll alvöru uppbygging á stjórnkerfi Íslendinga og stoðþjónustu þess kerfis einblínt á Reykjavík, til þeirrar uppbyggingar hafa allir Íslendingar greitt, sama hvar þeir bjuggu. Hafi menn á síðustu þrem áratugum fetað í fótspor núverandi forseta lýðveldisins og ljáð máls á fjölgun opinberra starfa annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu, hafa menn samstundis verið vændir um sérhagsmunagæslu og kjördæmapot. Oftast þegar ný störf hafa verið augljós afleiðing ákvarðana Alþingis hefur Reykjavík verið fyrsti valkostur fyrir staðsetningu.

Fram hefur komið - og það oftar en einu sinni - að íslenska ríkið moki enn hvað mest undir Reykvíkinga. Íslendingar eru sumsé ekki hættir að styðja við uppbyggingu á sinni nú velburðugu höfuðborg. Hærra hlutfalli af tekjum hins opinbera er ráðstafað í Reykjavík en hlutfall Reykvíkinga er af landsmönnum öllum. Nú síðast sýndi Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar fram á að ef jafnmargir menn byggju á höfuðborgarsvæðinu og í Eyjafirði þá starfa ellefu opinberir starfsmenn á höfuðborgarsvæðinu fyrir hvern einn sem starfar við Eyjafjörð. Hverju starfi fylgir mismikil, en þó alltaf einhver velta út í það nærsamfélag sem starfsmaðurinn lifir og starfar í. Það er óbeinn styrkur Íslendinga við Reykjavík. Á höfuðborgarsvæðinu búa um 63% landsmanna en þar starfa um 72% opinberra starfsmanna. Því er eðlilegt, vilji menn meira jafnvægi og samræmi milli íbúafjölda og fjölda opinberra starfa, að velja nýjum opinberum störfum stað í framtíðinni, fjarri höfuðborginni.

Reykjavík ætti að vera fær um að sjá um sig sjálf að loknum tveggja alda byggðastyrk. Opinber störf eru jú unnin í þjónustu við allan almenning, hvar sem hann er niðurkominn. Því styð ég áform um að nýrri matvælastofnun, sem fyrirhugað er að stofna með sameiningu nokkurra stofnana og hagræðingu í stjórnsýslunni, verði valinn staður á Akureyri, svo Íslendingar fái vottun frá Reykjavík fyrir tilvist sinni. Annars geta Íslendingar sameinast um að gefa Reykvíkingum sjálfstæði, svo þeir losni við áhyggjur af sjávarútvegi, landbúnaði og umræður um flutning opinberra starfa út á land.

Ef hvorugt verður niðurstaðan er hætt við að hér festist í sessi samfélag að rómansk-amerískri fyrirmynd. Hvar frumbyggjarnir á landsbyggðinni þurfa ítrekað að leita réttar síns án árangurs í borgarsamfélagið. Blendingjarnir sem þar eru eiga vissulega rætur úti á landi en virða frumbyggjana ekki viðlits í vitleitni sinni til að verða svo hvítir að þeir verði afkomendum nýlenduherranna samboðnir. Ef Ísland verður ekki borgríki með áframhaldandi einstefnu uppsprettna opinberra starfa í Reykjavík er hætt við að hér verði þrjár stéttir, landsbyggðarfólk, aðfluttir Reykvíkingar og innfæddir Reykvíkingar.

Arnljótur Bjarki Bergsson skrifar um byggðamál

Athugasemdir við tilhæfulaust orðagjálfur